E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 7, 109 Seiten
Reihe: Netta Muskett
Muskett Skúraskin
1. Auflage 2023
ISBN: 978-87-28-42078-2
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 7, 109 Seiten
Reihe: Netta Muskett
ISBN: 978-87-28-42078-2
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
Netta Muskett (1887-1963) í Kent á Englandi, hún hóf starfsferil sinn sem stærðfræðikennari og sinnti sjúkraflutningum í fyrri heimsstyrjöldinni. Síðar, árið 1927, gaf hún út sitt fyrsta skáldverk og varð brátt þekktur höfundur rómantískra skáldsagnabóka. Hún byrjaði að skrifa um fertugt og gaf hún út yfir 100 verk á ritferli sínum. Sum verka hennar komu út undir dulnefninu Annie Hill. Bækur Musketts eru þekktar fyrir grípandi söguþráð, margslungnar persónur og rómantíska atburðarás. Muskett var talin einn af farsælustu höfundum rómantískra skáldsagna á meðan hún lifði. Lesendahópur hennar var stór og voru bækur hennar þýddar yfir á fjölmörg tungumál og nutu þær vinsælda um allan heim. Netta Muskett lést 76 ára gömul árið 1963 og entist henni ekki ævin til að sjá öll hennar verk á prenti. Síðasta bókin hennar kom út árið 1964. Bandaríska félagið The Romantic Novelists' Association veitti lengi verðlaun sem nefnd voru í höfuðið á Nettu Muskett, en hún var einn af meðstofnendum félagsins. Bækur hennar höfða til þeirra sem njóta rómantískra skáldsagna sem fjalla um fjölskyldur, ástir og örlög.
Weitere Infos & Material
FYRSTI KAFLI
Lára Dane stóð falin bak við háu pálmana, sem fengnir höfðu verið sérstaklega fyrir þetta tækifæri, og horfði út í fagurt tunglsljós júnínæturinnar, hvíldist stundarkorn í kyrrð og ró eftir umstang og hávaða kvöldsins. Maðurinn hennar kom að finna hana, eins og alltaf, ef hann missti sjónar af henni litla stund, og hann tók utan um hana. Hún sneri sér við brosandi og þrýsti fingur hans.
— Ertu þreytt, elskan?“ spurði hann.
— Svolítið — en þetta gekk ljómandi vel, og hún andvarpaði lítillega.
— En? endurtók hann í spurnartón.
Hún færði sig til, svo hann kæmist inn í gluggaskotið.
— Sérðu það, sem ég sé?
Carla, hið heittelskaða einkabarn þeirra, sat í makindum á brúninni á steinkerinu, sem í syntu afkomendur gullfiskanna, sem hún hafði átt í bernsku, en þessa stundina var hún ekki að horfa á gullfiska. Öll athygli hennar beindist að manninum, sem hafði fylgt henni út í garðinn, og hún vonaði, að það hefði hann gert í einu augnamiði aðeins.
Sundurleitar tilfinningar spegluðust í andlitssvip Edwards Dane.
— Derek Hanley, sagði hann hugsi. — Svona fljótt?
Kona hans brosti, en andvarpið bjó enn bak við brosið.
— Hún er orðin tuttugu og eins árs. Þessi veizla er haldin í tilefni af því, að hún er orðin myndug, mundu það. Við megum prísa okkur sæl að hafa haldið henni hjá okkur svona lengi, nú þegar stúlkur gifta sig beint út úr hreiðrinu heima hjá sér. Og Derek er — geðfelldur piltur.
— Ó, já-já. Ég hef svo sem ekkert sérstakt á móti honum, nema það, að starfið virðist ekki gefa honum mikið í aðra hönd enn sem komið er. Það líður sennilega nokkur tími þangað til hann verður fær um að sjá fyrir konu — ekki svo að skilja, að Carla þurfi þess með, að fyrir henni sé séð. Ég mundi ekki leggja hindranir í veg þeirra samt sem áður, ef ég væri viss um, að þetta væri heppilegur ráðahagur handa henni.
— Og þú ert ekki viss um það, Edward, eða hvað?
— Ég veit það ekki. Hvað finnst þér sjálfri? En mér hefur stundum verið að detta í hug, að Richard Moyce . . . .
Hann hikaði.
— Ricky? Ó, ekki held ég það, og hún mundi síðust kvenna una sveitalífi. Derek er miklu fremur hennar manngerð. Hún mun taka sína ákvörðun, hvað sem okkur kann að finnast um hana, og hann brosti til hennar sínu sérstaka brosi, sem hún vissi, að átti að minna hana á, að sjálfur hafði hann sniðgengið óskir foreldra sinna, þegar hann kvæntist henni, og aðeins eftir áralanga beiskju og fáleika höfðu þau orðið að viðurkenna, að Lára hafði gert hann fullkomlega hamingjusaman í afar farsælu hjónabandi.
Nú sáu þau Cörlu tylla sér á tá til að kyssa fríðan og ungan mann, sem þeim féll ekki alls hugar vel í geð, hún féll í faðm hans, og hann lagði hendurnar utan um hana, en þau hjónin sneru sér undan. Þau vissu, að þetta voru engir handahófskossar, af hennar hálfu. Þetta var alvörumál.
Derek Hanley var draumaprins margra ungra stúlkna. Hann var hár vexti og mjúkvaxinn, svart hárið var greitt slétt aftur, blá augun fóru vel við sólbrúnt hörundið, og einmitt á þessu augnabliki voru þau að tjá henni, að allar hugsanir hans snerust um hana. Það hlutu þær að gera, því að í björtu tunglsljósi júnínæturinnar var hún sannarlega töfrandi. Fölur ávali andlitsins, sem sólskin og regn höfðu aldrei nein áhrif á, var í skugga, en augu hennar voru skær sem stjörnurnar, og lokkar hennar, silfurglitrandi í tunglsljósinu, mynduðu eins og geislabaug um höfuð hennar, hún var grönn, og hreyfingarnar mjúkar og liðlegar, nakta armana bar við hvítan, silfurofinn kjólinn. Hún teygði fram fágætlega einbeitnislega hökuna, svo að enn betur kom í ljós fögur línan frá augnabrúnunum að hálsi og ungum, bogadregnum brjóstum; hún var auganu fagnaðarsýn og það var hún líka í augum Dereks Hanley, og fögnuður hans jókst enn við það, að hún hafði nú tekið ákvörðunina um að giftast honum.
Henni hafði sjálfri verið þessi fyrirætlun ljós um nokkurt skeið, en hafði ekki verið viss um, að þessu væri eins farið um hann, þangað til núna í kvöld. Hann var svo glaðsinna og svo eftirsóttur, svo augljóslega hlutlaus í umgengni sinni við konur, og hún, sem var svo mörgum kostum búin og svo dáð af karlmönnum, var furðulega óörugg um sjálfa sig og manninn, sem hún unni. Hún hafði þjáðst af efa um það, hvort hann endurgyldi ást hennar. En í kvöld hafði hann horft á hana með sérstökum hætti, hann hafði verið kyrr eftir að flestir aðrir gestir voru farnir og hafði leitt hana út í draumkennda fegurð garðsins.
— Komdu út að ganga, hafði hann sagt, þegar dansleiknum var lokið.
Hún varð furðu lostin við þetta tilboð, en hún lét ekki á því bera.
— Veiztu, að klukkan er bráðum orðin tvö?
— Komum þá aðeins út í garðinn. Og hvað er tíminn eiginlega? Tilbúið hugtak, gert til hægðarauka fyrir manninn, en ekki til þess að leggja nein bönd á hann.
Hún hló.
— Skárri er það nú mælskan! Jæja-þá, aðeins stutta stund, og þegar hann greip um hönd hennar var sem eldur færi um fingurna á henni.
Þau sveifluðu höndunum, er þau leiddust út, hann fann að taugaspennu hennar leiddi yfir til hans. En hve hún gat verið yndisleg og dásamleg stúlka!
Allt í einu minntist hann þess, hversu mjög þau höfðu hatazt og skammazt, þegar hún var tíu ára, eða þar um bil, en hann einu eða tveimur árum eldri. Hún hafði sagt, að það væri ólykt af honum og að hann væri skítugur bak við eyrun, og hann batt hana við tré með hennar stuttu fléttum — „tíkarspenunum“, og hljóp síðan frá henni og lét hana eina um það að berjast við að losna með harmkvælum.
Hann hló, og þegar þau komu að steinkerinu með gullfiskunum, hrifsaði hún höndina til sín og ögraði honum. Hún hafði verið undir það búin að þiðna öll upp við snertingu hans — og þá gerði hann ekki annað en að hlæja að henni!
— Að hverju ertu að hlæja? spurði hún hálf-gremjulega.
— Mér flaug það allt í einu í hug þegar ég batt þig við tréð með þínum eigin „tíkarspenum“. Þú varst lítil leiðindaskjóða og hagaðir þér skelfilega.
— Og þú varst yfirgengilegur rusti! sagði hún og svo hlógu þau og einhvern veginn gerðist það, að þau tóku utan um hvort annað og hláturinn dó út á andlitum þeirra, varir þeirra mættust, og heimurinn umhverfis þau stóð kyrr eitt töfrandi augnablik.
Aldrei hafði neitt verið líkt þessu, — auðvitað...




