Ambjørnsen | Elling: Paradís í sjónmáli | E-Book | sack.de
E-Book

E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 1, 188 Seiten

Reihe: Elling

Ambjørnsen Elling: Paradís í sjónmáli

E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 1, 188 Seiten

Reihe: Elling

ISBN: 978-87-27-04988-5
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark



'Mamma dó. (...) Hún var einbirni. Ég var einbirni. Það kom enginn í heimsókn.' Á þessum nótum hefst fyrsta bókin í ritröðinni um Elling, einmana sérkennilegan mann sem lesendur komast ekki hjá að þykja vænt um, enda sjá þeir sig sjálfa í honum. Elling býr í blokk í Osló með móður sinni og virðast þau aðeins hafa félagsskap hvort af öðru. Þegar móðir Ellings deyr tekst hann á við einmanaleikann með því að kaupa sér stjörnukíki sem hann notar til að fylgjast með nágrönnum sínum og lifa sig inn í tilveru þeirra. Þannig uppgötvar hann að allir eiga sér leyndarlíf og enginn er eins og hann virðist vera út á við.

Ingvar Even Ambjørnsen-Haefs (1956) er norskur rithöfundur, best þekktur fyrir 'Elling' ritröðina, sem inniheldur meðal annars bækurnar Paradís í sjónmáli og Fugladansinn. Allar bækur hans innihalda persónur á jaðri samfélagsins og hann hefur gagnrýnt ýmis samfélagsmein í verkum sínum, ekki síst norska geðheilbrigðiskerfið. Bók hans 'Brødre i blodet' varð að bíómyndinni Elling, sem var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin árið 2001. Þar fyrir utan hafa bækur hans unnið til fjölda verðlauna, m.a. menningarverðlauna Telenor árið 2002. Ingvar Ambjørnsen segist hættur ritstörfum og býr nú í Þýskalandi með konu sinni.
Ambjørnsen Elling: Paradís í sjónmáli jetzt bestellen!

Weitere Infos & Material


Mamma dó. Það gekk allt mjög átakalaust fyrir sig. Ef hægt er að nota orð eins og „átakalaus“ um umskiptin yfir til Hinnar miklu óvissu, hins algera. Jú, það er hægt. Ég las nýlega í Arbeiderbladet um konu frá Beirut. Hún var pynduð til dauða með því að rottu hafði verið troðið upp í móðurlíf hennar. Rottan þurfti að finna leiðina út úr líkama hennar aftur með gulu nagtönnunum sínum. Slíkan dauðdaga má með réttu kalla átakamikinn samanborið við það að líða út af í nýuppbúnu sjúkrahúsrúmi án teljanlegra verkja. Krabbinn hafði búið um sig í lifrinni á henni, það var ekkert við því að gera, eins og læknarnir sögðu en þeir önnuðust hana vel er leið að lokum. Hún dó 11. nóvember. Ég er búinn að gleyma hvaða vikudagur það var. Þeir hringdu frá sjúkrahúsinu um níuleytið um morguninn og sögðu að ég yrði að koma strax en þegar ég kom var það yfirstaðið. Það var búið að leggja hana til, ég man hvað hún virtist lítil, næstum eins og vaxbrúða. Þeir sögðu að ég mætti ekki vera leiður yfir að hafa ekki náð í tíma; hún hafði ekki vaknað heldur farið beint úr svefninum yfir í dauðann. Svo fór ég út í rigninguna. Það var enginn vindur, bara þétt kyrrt regn, ég gekk stefnulaust um göturnar í miðbænum, ég grét ekki, ég var ekki einu sinni sérlega sorgmæddur, og einmitt þess vegna skammaðist ég mín svolítið. En að þeirri skömm undanskilinni, sem var reyndar ekkert sérstaklega óþægileg, það verð ég að viðurkenna, þá fannst mér ég bara tómur. Ekki í neikvæðum skilningi, ekki eins og orðið er oft notað þegar á að lýsa tilgangsleysinu, nei tómur – ástand sem fól í sér algert hlutleysi. Ég hlýt raunar að hafa hugsað, það gerir maður þó alltaf en ég man ekki um hvað ég hugsaði. Ég staðnæmdist fyrir utan Dagbladet og lét augun renna yfir síðurnar sem voru hengdar upp bak við glerrúðurnar en ég get ekki munað hvað stóð þar, ég held ég hafi ekki lesið það. Viðbrögðin komu fyrst seinna, eftir að ég var kominn heim. Guð minn góður, ég hafði þó verið í mjög nánu sambandi við móður mína, ekki móðursýkislegu, ekki hættulegu eins og ég hafði lesið um í bókum og séð í kvikmyndum – en þó verður ekki litið fram hjá því að alla mína ævi, í þrjátíuogtvö ár, vorum það bara við, ég og hún. Föður minn hafði ég aldrei hitt, hann dó í vinnuslysi fjórum vikum áður en ég fæddist. Fyrir mér var hann bara minningar móður minnar og söknuður sem ég gat ekki tengt við hann fyrr en á fullorðinsárum. Hann var karlmaðurinn sem mamma var með á gulnuðu myndunum í ljósmyndaalbúminu, karlmaðurinn í pokabuxum og skíðasokkum í Kikut veturinn 46, karlmaðurinn í dökkri sundskýlu úr ullarefni með hvítum röndum á hliðunum sem hélt utan um brosandi móður mína einhvers staðar úti á Snar-eyju sumarið 50. Það voru ekki til neinar brúðkaupsmyndir af þeim, allavega ekki heima hjá okkur, hvers vegna hef ég ekki hugmynd um. Pabbi varð að vofu, einhverjum krafti sem bjó undir fægðum steini í Vestre Aker kirkjugarði, mamma varð að konu sem dró sig inn í sig sjálfa og tók mig með. Hún var einbirni. Ég var einbirni. Það kom enginn í heimsókn. Ég sat þarna í tómri stofunni. Arbeiderbladet lá opið á borðinu, hálftómur tebolli stóð við hliðina. Allt nákvæmlega eins og ég hafði skilið við það eftir þetta stutta símtal nokkrum tímum áður. Mér fannst það algerlega óraunverulegt að ég myndi aldrei aftur heyra hægt fótatak mömmu í stigaganginum, lykilinn í skránni, hljóðið frá innkaupatöskunni sem lögð var á gólfið í forstofunni, röddina hennar sem barst til mín meðan hún hengdi frá sér kápuna, sagði mér frá einhverju sem hafði borið fyrir hana í Irmu eða á leiðinni. Já, óraunverulegt. Nokkrum dögum seinna hringdi ég í Hjálpræðisherinn. Síðdegis sama dag komu þrír menn frá fatasöfnuninni og tóku með sér fötin hennar mömmu og húsgögnin úr svefnherberginu. Þegar ég stóð í tómu hvítu herberginu eftir að þeir voru farnir fann ég fyrir djúpri ró. Hið óraunverulega var nú orðið raunverulegt. Um nóttina, eftir að ég hafði slökkt á sjónvarpinu, fór ég aftur inn í herbergið hennar mömmu. Ég kveikti ekki ljós. Úti var minnkandi tungl en þó var það ennþá stórt; bláleit birta féll á hvíta fletina. Ég fór út að glugganum og leit út yfir blokkirnar og skóginn, úthverfið þar sem ég hafði alist upp og dvalist nánast hvern einasta dag ævi minnar. Undarlegt. Þrjú herbergi og eldhús í hæfilegri fjarlægð frá Ósló. Sautján mínútur með neðanjarðarlestinni, til að vera alveg nákvæmur. Sextíuogfimm skref niður að útidyrum. Sex mínútna rólegur gangur að stöðinni. Ef einhver hefði spurt mig einhvern tíma fyrr hefði ég fullyrt að ég þekkti hvern millimetra í þessari litlu blokkaríbúð, að ég gæti gert grein fyrir hverjum krók og kima. En samt: Nú þegar ég stóð inni í herberginu hennar mömmu og leit út yfir blokkirnar í hlíðinni fyrir neðan rann upp fyrir mér að ég hafði í rauninni ekki stigið fæti hingað inn síðan ég var lítill drengur, og ég meina lítill drengur, lítill drengur sem sefur hjá mömmu þegar skuggarnir á veggnum í barnaherberginu verða ógnvekjandi. En samt sem áður: Nú þegar gluggatjöldin höfðu verið tekin niður og herbergið algerlega tæmt rann upp fyrir mér að ég leit á blokkirnar úti, þetta kunnuglega landslag með hörðum gráum hornum móti dökkum fjaðrandi grenitrjám, malbikaðar slaufur gangstíganna og lýsandi deplana á ljósastaurunum, frá nýju og djarflegu sjónarhorni. Ég hef ekki hugmynd um af hverju orðið „djarflegur“ kom mér í hug en það gerði það sem sagt. Tilvera mín rúmaði nýtt hvítt herbergi og nýja leið til að skoða veröldina, veröld sem ég hafði fyrir löngu vanist eins og hverri annarri mynd sem aldrei breytist. Vissulega hafði ég séð börn vaxa upp og fjölskyldur flytja út og inn. En sjálfur ramminn um þetta allt, þetta rými sem fólk bjó í, hafði verið óbreyttur. Frá neðanjarðarlestinni og heim. Heiman og að neðanjarðarlestinni. Heiman og útí Irmu. Frá Irmu og heim. Sömu hornin, sömu fletirnir. Útsýnið frá stofunni, frá herberginu mínu, eða frá eldhúsinu: Bara árstíðirnar sem liðu hjá gátu valdið einhverju óvæntu, í líki skyndilegrar snjókomu í lok apríl eða sól og hita í nóvember. Stöku sinnum hafði ég á tilfinningunni að það þyrfti fellibyl til að vekja mig, í önnur skipti gat ég allt í einu hoppað af kæti yfir skyndilegum sólargeisla sem skaust yfir gaflinn á blokkinni á móti. Eins og ég stóð...


Ihre Fragen, Wünsche oder Anmerkungen
Vorname*
Nachname*
Ihre E-Mail-Adresse*
Kundennr.
Ihre Nachricht*
Lediglich mit * gekennzeichnete Felder sind Pflichtfelder.
Wenn Sie die im Kontaktformular eingegebenen Daten durch Klick auf den nachfolgenden Button übersenden, erklären Sie sich damit einverstanden, dass wir Ihr Angaben für die Beantwortung Ihrer Anfrage verwenden. Selbstverständlich werden Ihre Daten vertraulich behandelt und nicht an Dritte weitergegeben. Sie können der Verwendung Ihrer Daten jederzeit widersprechen. Das Datenhandling bei Sack Fachmedien erklären wir Ihnen in unserer Datenschutzerklärung.